Starfssvið
Umferðarsvið Rannsóknarnefndar samgönguslysa (RNSA) annast rannsókn banaslysa og alvarlegra umferðarslysa. Markmið rannsókna er að finna orsakaþætti og meðverkandi orsakaþætti sem leiddu til þess að banaslys eða alvarlegt umferðarslys varð. Tilgangur rannsóknanna er að bæta umferðaröryggi og koma í veg fyrir að samskonar slys verði aftur. Það er ekki hlutverk nefndarinnar að skipta sök eða ábyrgð. Þegar slys verður í þeim flokki sem umferðarsvið RNSA hefur til rannsóknar tilkynnir vakstöð samræmdrar neyðarsímsvörunnar nefndinni um að slys eða atvik hafi orðið. Fara starfsmenn sviðsins á vettvang eins fljótt og auðið er.
Umferðarslys er skilgreint samkvæmt lögum nr.18/2013 um rannsókn samgönguslysa, sem það tilvik þar sem a.m.k. eitt ökutæki á hreyfingu á aðild að slysi á opinberum vegi, einkavegi eða svæði sem opið er almennri umferð. Banaslys í umferð telst það umferðarslys þegar einstaklingjur lætur lífið innan 30 daga frá þeim degi er slysið varð, enda verði banamein hans að nokkru eða öllu leyti rakið til slyssins. Lögsaga rannsókna umferðarsviðs RNSA er Ísland.
Auk rannsókna banaslysa og alvarlegra umferðarslysa getur umferðarsvið ákveðið að beina sjónum að sérstökum vandamálum í umferðinni, óháð því hvort meiðsli eru alvarleg eða hafa orðið. Sem dæmi má nefna rannsóknir á bílbeltanotkun, ölvunarakstur og slys tiltekinna vegfarendahópa. Sama gildir um umferðarmannvirki og ökutæki. Í þessu samhengi má nefna að alvarleg umferðaratvik eru skilgreind í fyrrnefndum lögum um RNSA óháð meiðslum. Alvarleg umferðaratvik er það atvik eða kringumstæður í tengslum við umferð ökutækja sem ekki er umferðarslys en getur leitt til alvarlegs slyss á vegfarendum eða tjóni á ökutækjum, umferðarmannvirkjum og umhverfi, sé því ekki afstýrt.
Nánar um verkefnin