Ábendingar Síða 2

Leita að ábendingar

Of hraður akstur

Umferð
Nr. máls: 2023-046U008
13.05.2024

Of hraður akstur

RNSA hefur áður fjallað um hraðakstur og afleiðingar hans í skýrslum sínum. Of hraður akstur er algeng ástæða banaslysa í umferðinni og ítrekar nefndin mikilvægi þess að ökumenn aki ekki hraðar en leyfilegur hámarkshraði og miði aksturinn við aðstæður hverju sinni.

Tengill á skýrslu

Notkun öryggisbelta

Umferð
Nr. máls: 2023-046U008
13.05.2024

Notkun öryggisbelta

RNSA telur mikilvægt að brýna fyrir ökumönnum og farþegum að nota ávallt öryggisbelti, hvort sem verið er að fara styttri eða lengri leiðir. Vanhöld á notkun öryggisbelta eru ein af helstu orsökum alvarlegra áverka og banaslysa í umferðinni.

Tengill á skýrslu

Ökuhæfi og veikindi

Umferð
Nr. máls: 2023-019U005
16.04.2024

Rannsóknarnefnd samgönguslysa bendir á að mikilvægt er að ökumenn hætti akstri ef þeir eiga við veikindi að stríða sem skerða ökuhæfni eða nota lyf sem skerða ökuhæfni. Veikindi og lyfjanotkun geta haft neikvæð áhrif á hæfni einstaklinga til að stjórna ökutæki örugglega. Sum lyfseðilsskyld lyf hafa slævandi áhrif sem gerir það varasamt að stjórna ökutæki. Mikilvægt er að læknar upplýsi sjúklinga sína um áhrif slævandi og róandi lyfja á viðbragðsflýti og einbeitingu. Jafnframt er mikilvægt að einstaklingar hafi sjálfir í huga þessar aukaverkanir lyfja og fylgi leiðbeiningum lækna og fylgiseðla af nákvæmni.

Í aðsendri grein í Læknablaðinu [1] um ökuhæfni sjúklinga kemur fram að erlendar rannsóknir hafa bent til þess, ef frá er talin misnotkun áfengis og lyfja, að sjúkdómar sem líklegastir eru til þess að valda aukinni hættu á slysum séu heilabilun og kæfisvefn. Til þess að fá einhverjar upplýsingar um umfang þessa vandamáls hér á landi lögðu höfundar greinarinnar spurningalista fyrir nokkra hópa af læknum Landspítala. Voru spurningarnar lagðar fyrir 42 lækna, á deildum sem eru líklegastir til að sinna þeim sem verða óökuhæfir af völdum sjúkdóma eða annarlegs ástands, og reyndust 27, eða 64% þeirra, hafa orðið varir við að sjúklingar hafi haldið áfram akstri gegn ráðleggingum læknis. Í 52 tilvikum vissu læknarnir til þess að sjúklingur hefði á síðasta ári valdið skaða eftir að hafa ekið bíl án þess að vera hæfur til þess. Algengast var að einstaklingar með flogaveiki og heilabilun höfðu ekki hlýtt fyrirmælum læknis um að hætta akstri, en meðal annarra þátta sem nefndir voru var misnotkun lyfja og áfengis, óskýrð yfirlið, sykursýki, kæfisvefn og sjónskerðing. Að mati höfunda staðfesti könnunin að hér hafi verið um raunverulegt vandamál að ræða í íslensku samfélagi. Óhæfir ökumenn eru í umferðinni og skapa sjálfum sér og öðrum vegfarendum raunverulega hættu.

Í varnaðarskýrslu sem Rannsóknarnefnd umferðarslysa gaf út árið 2007 var bent á reglur sem unnar voru af kanadíska læknafélaginu en embætti Landlæknis birti þær til leiðbeiningar fyrir íslenska lækna á vefsíðu sinni. Þar er farið yfir helstu sjúkdóma sem geta dregið úr ökuhæfni, gefin upp viðmið til greininga á sjúkdómum auk leiðbeininga um hvenær nauðsynlegt er að afturkalla ökuréttindi sjúklinga. Það er ljóst að greiningartæki og viðmið skortir ekki en nokkuð vantar upp á framkvæmd þeirra á Íslandi.

 

[1] Hjalti Már Björnsson og Kristín Sigurðardóttir. Ökuhæfni sjúklinga, Læknablaðið, 11.tbl. 91. árg. 2005.

Tengill á skýrslu

Blind svæði ökumanna

Umferð
Nr. máls: 2022-058U011
12.04.2024

Rannsóknarnefnd samgönguslysa vill koma þeirri ábendingu til ökumanna hversu mikilvægt það er að vera meðvitaðir um möguleg blind svæði umhverfis þau ökutæki sem þeir stjórna hverju sinni og nauðsyn þess að sjá inn á slík svæði. Slík svæði, þar sem ökumenn sjá ekki til, eru mismunandi eftir gerð og stærð ökutækja og til dæmis eru svæðin stærri umhverfis löng ökutæki en umhverfis fólksbíla eða minni sendibíla. Einnig getur hönnun og staðsetning A-pósta bifreiða, eins og fram kemur í þessari skýrslu, haft áhrif á stærð blinda svæðis ökumanna.

Tengill á skýrslu

Gengið yfir akbrautir

Umferð
Nr. máls: 2022-058U011
12.04.2024

Rannsóknarnefnd samgönguslysa vill benda á að samkvæmt umferðalögum á gangandi vegfarandi, sem ætlar yfir akbraut eða hjólastíg, að hafa sérstaka aðgát gagnvart ökutækjum sem nálgast. Í umferðarfræðslu Samgöngustofu kemur einnig fram að mikilvægt sé ávallt að stoppa, hlusta og líta til beggja hliða áður en gengið er yfir akbraut.

Tengill á skýrslu

Notkun stefnuljósa

Umferð
Nr. máls: 2022-058U011
12.04.2024

Rannsóknarnefnd samgönguslysa vill koma á framfæri mikilvægu hlutverki réttrar notkunar stefnuljósa. Stefnuljós nýtast öllum vegfarendum óháð ferðamáta og skipta miklu máli hvað öryggi og tillitssemi varðar.

Tengill á skýrslu

Umferðaröryggisáætlanir sveitarfélaga

Umferð
Nr. máls: 2022-044U007
22.02.2024

Umferðaröryggisáætlanir sveitarfélaga

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hvetur sveitarfélög að gera umferðaröryggisáætlun sem ekki hafa þegar unnið slíka. Í skýrslu VSÓ ráðgjafar um mat á ávinningi umferðaröryggisáætlana sveitarfélaga[1] kemur fram að sveitarfélögin væru sammála um að ávinningur hafi hlotist af gerð slíkra áætlana og að þær nýtist embættismönnum og sveitarstjórnarmönnum við störf sín og til að auka vitund forráðamanna sveitarfélaga og íbúa um umferðaröryggi. Þær eru mikilvæg skref til að ná markmiðum stjórnvalda í umferðaröryggismálum, sem eru að draga úr fjölda látinna og slasaðra vegfarenda. Í slíkri áætlun geta m.a. komið fram upplýsingar um uppbyggingu vegakerfis sveitarfélagsins og vegflokka, hraðaflokka, umferðarmagn, yfirborðsmerkingar, samsetningu umferðar og hraða. Auk þess kortlagning stígakerfa, skólaleiða og almenningssamgangna.

 

[1] VSÓ ráðgjöf, 2020, Umferðaröryggisáætlanir sveitarfélaga. Mat á ávinningi. Vegagerðin.

Tengill á skýrslu

Skipulagsbreytingar innan sveitarfélaga og umferðaröryggi

Umferð
Nr. máls: 2022-044U007
22.02.2024

Skipulagsbreytingar innan sveitarfélaga og umferðaröryggi

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hvetur sveitarfélög til að huga sérstaklega að umferðaröryggi þegar breytingar eru lagðar til á skipulagi innan sveitarfélaga líkt og þegar verið er að breyta eða blanda saman landnotkun samkvæmt aðalskipulagi eða þegar unnið er að tillögum um breytingar á deiliskipulagi.

Tengill á skýrslu

Akstur undir áhrifum ólöglegra fíkniefna

Umferð
Nr. máls: 2022-098U018
18.01.2024

Akstur undir áhrifum ólöglegra fíkniefna

Akstur undir áhrifum áfengis, vímuefna og lyfja er alvarlegt vandamál í umferðinni. Af sextán banaslysum í umferðinni árin 2020 og 2021 voru ökumenn í fimm slysum undir áhrifum ólöglegra fíkniefna eða áfengis. Vímuefni hafa áhrif á dómgreind ökumanna og skynjun þeirra á umhverfið. Viðbragð, hreyfistjórnun og rökvísi skerðast og líkur á alvarlegu slysi aukast.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa ítrekar fyrri ábendingar um akstur undir áhrifum fíkniefna og sljóvgandi lyfja. Nauðsynlegt er að koma þeim skilaboðum á framfæri við ökumenn að þeir aki ekki undir neinum kringumstæðum eftir neyslu slíkra efna.

Tengill á skýrslu

Akstur undir áhrifum áfengis

Umferð
Nr. máls: 2022-098U018
18.01.2024

Akstur undir áhrifum áfengis

Undanfarin ár hefur akstur undir áhrifum áfengis verið algeng orsök banaslysa í umferðinni. Eins og alþekkt er hafa vímuefni áhrif á dómgreind ökumanna og skynjun á umhverfið. Áfengismagn í blóði þarf ekki að vera mikið til að áhrifin skerði einbeitingu hins ölvaða, sjónsvið minnkar og fjarlægðarskyn versnar. Eftir því sem ölvun er meiri, lengist viðbragðstími og hreyfistjórnun og rökvísi skerðast. Rannsóknarnefnd samgönguslysa ítrekar fyrri ábendingar um akstur undir áhrifum áfengis. Að mati nefndarinnar er nauðsynlegt að koma þeim skilaboðum áfram á framfæri við ökumenn að þeir aki ekki bifreið eða öðru ökutæki eftir að hafa neytt áfengis.

Tengill á skýrslu