Ábendingar Síða 9

Leita að ábendingar

Borgarfjarðarbraut við Grjóteyri (2)

Umferð
Nr. máls: 2019-135U016
17.09.2020

Ástand hjólbarða, viðnám á vegi

Hjólbarðar gegna mikilvægu hlutverki og þurfa að uppfylla kröfur, sem kveðið er á um í lögum og reglum, sem og í leiðbeiningum framleiðenda. Mikilvægt er að hjólbarðar ökutækja séu í góðu lagi, því gæði þeirra og ástand skipta miklu máli fyrir aksturseiginleika bifreiða. Kraftar myndast á snertifleti hjólbarðanna við veginn þegar hraðinn er aukinn, þegar hemlað er og þegar ökutækjum er ekið í beygjum. Þessa krafta þarf vegviðnámið að yfirvinna. Lélegir hjólbarðar geta valdið því að bifreið verður óstöðug á vegi og auknar líkur verða á að ökumaður missi stjórn á ökutækinu vegna lélegs vegviðnáms. Viðnámið minnkar eftir því sem slit hjólbarðanna er meira. Minna vegviðnám leiðir af sér lengri hemlunarvegalengd og eykur líkur á að bifreið fari í hliðarskrið. Tjara hafði safnast í raufar hjólbarða Nissan bifreiðarinnar. Mikilvægt er að halda hjólbörðum hreinum og þrífa þá ef tjara er farinn að safnast upp á þeim. Uppsöfnuð tjara á hjólbörðum minnkar veggrip.   

Tengill á skýrslu Skýrsla

Reykjanesbraut Tjarnarvellir

Umferð
Nr. máls: 2018-187U025
03.09.2020

Notkun öryggisbelta

Farþeginn, sem lést, var ekki spenntur í öryggisbelti. Nefndin telur sennilegt að hann hefði lifað slysið af hefði hann verið spenntur í öryggisbelti. Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur mikilvægt að brýna fyrir ökumönnum og farþegum að nota ávallt öryggisbelti, hvort sem verið er að fara styttri eða lengri leiðir. Vanhöld á notkun öryggisbelta eru ein helsta orsök banaslysa og annarra alvarlegra slysa í umferðinni.

Reykjanesbraut Tjarnarvellir (1)

Umferð
Nr. máls: 2018-187U025
03.09.2020

Svefn og þreyta

Rannsóknir Rannsóknarnefndar samgönguslysa hafa sýnt að svefn og þreyta eru algengar orsakir banaslysa í umferðinni. Í fimm af 15 banaslysum árið 2018 var orsök eða meðorsök rakin til svefns eða þreytu. Brýnt er að ökumenn forðist að aka þreyttir. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að þreyta skerðir aksturshæfni sem og að hætta er á að þreyttur ökumaður dotti eða jafnvel sofni undir stýri. Rannsóknarnefnd samgönguslysa brýnir fyrir ökumönnum að gæta vel að þessari hættu. Eins ættu allir að vera á verði og gera athugasemdir við ferðaáætlanir vina og ættingja ef sýnt er að þær geri ekki ráð fyrir nægjanlegri hvíld ökumanns.

Tengill á skýrslu Skýrsla

Ingjaldssandsvegur

Umferð
Nr. máls: 2019-093U009
01.06.2020

Möguleikar Tetra kerfisins og skuggasvæði

Fjarskiptasjóður stóð fyrir þjóðvegaátaki fyrir um áratug þar sem byggður var fjöldi sendastaða nærri vegum. Einnig hefur Neyðarlínan, að hluta í samstarfi við fjarskiptasjóð, byggt upp marga nýja staði. Víðast hvar á þjóðvegum, stofnvegum og tengivegum,  er því farsímasamband og hægt að hringja í 112 og á sömu stöðum er Tetra samband fyrir viðbragðsaðila.

Þó eru enn víða staðir, svokölluð skuggasvæði, sérstaklega á svæðum þar sem fáir fara um þar sem ekkert símasamband er og örðugt er vegna mikils kostnaðar og tæknilegra erfiðleika að koma á sambandi.

Tetra tæknin er þó þannig að flestar bílstöðvar eru með innbyggða gátt sem framlengt getur þjónustusvæðið. Þannig geta t.d. viðbragðsaðilar og aðrir sem nýta þessa tækni dekkað takmarkað svæði tímabundið meðan unnið er á skuggasvæðum.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hvetur aðila sem mögulega geta nýtt sér þessa tækni til þess að kynna sér þá möguleika sem Tetra kerfið bíður upp á og halda starfsfólki þjálfuðu og upplýstu. Nefndin hvetur einnig fjarskiptafyrirtæki og fjarskiptasjóð til þess að halda áfram uppbyggingu á fjarskiptakerfi landsins og reyna eins og mögulegt er að fylla upp í göt sem finna má víða á landinu.

Þar sem slysið átti sér stað var símasamband lélegt. Ávallt er hætta á að upp geti komið aðstæður þar sem kalla þarf á aðstoð og leggur nefndin til að fyrirtæki og stofnanir hafi að lágmarki tvo starfsmenn saman við þær aðstæður.

Norðurlandsvegur Æsustaðir 23.4.2019

Umferð
Nr. máls: 2019-051U007
29.04.2020

Of hraður akstur

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur áður fjallað um hraðakstur og afleiðingar hans í skýrslum sínum. Of hraður akstur er ein af algengustu ástæðum banaslysa í umferðinni og ítrekar nefndin mikilvægi þess að ökumenn aki eigi hraðar en hámarkshraði og aðstæður leyfa.  

Tengill á skýrslu Skýrsla

Norðurlandsvegur Æsustaðir 23.4.2019 (1)

Umferð
Nr. máls: 2019-051U007
29.04.2020

Skoðun ökutækja

Niðurstaða bíltæknirannsóknar bendir til þess að hemlakerfið bifreiðarinnar hafi verið bilað þegar bifreiðin var færð til skoðunar tæpum þremur mánuðum fyrir slysið. RNSA ítrekar nauðsyn þess að mikilvægur öryggisbúnaður ökutækja sé skoðaður af gaumgæfni á skoðunarstöðvunum og athugasemdir gerðar standist hann ekki lágmarkskröfur skoðunarhandbókar ökutækja.

Tengill á skýrslu Skýrsla

Norðurlandsvegur Æsustaðir 23.4.2019 (2)

Umferð
Nr. máls: 2019-051U007
29.04.2020

Viðbrögð ökumanns þegar annað hjólið fer út fyrir bundið slitlag

Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakar reglulega alvarleg umferðarslys þar sem ökumaður bregst ranglega við þegar hann missir hjólin út af slitlagi og missir stjórn á bifreiðinni við að sveigja inn á veginn aftur eins og raunin var í þessu slysi. Mikilvægt er að bregðast rólega við og sveigja hægt inn á veginn aftur sé það hægt. Hættulegt getur verið að beita hemlum og stundum getur verið betri kostur að stýra bifreiðinni út af veginum og eftir fremsta megni komast hjá því að bifreiðin velti.

Tengill á skýrslu Skýrsla

Borgarfjarðarbraut Flókadalsá

Umferð
Nr. máls: 2018-203U027
25.03.2020

Akstur undir áhrifum áfengis

Undanfarin ár hefur akstur undir áhrifum áfengis verið algeng orsök banaslysa í umferðinni. Eins og alþekkt er hafa vímuefni áhrif á dómgreind neytenda og skynjun umhverfis. Áfengismagn í blóði þarf ekki að vera mikið til að áhrifin skerði einbeitingu hins ölvaða, sjónsvið minnkar og fjarlægðarskyn versnar. Eftir því sem ölvun eykst, lengist viðbragðstími og hreyfistjórnun og rökvísi skerðast.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa ítrekar fyrri ábendingar um akstur undir áhrifum áfengis. Að mati nefndarinnar er nauðsynlegt að koma þeim skilaboðum áfram á framfæri við ökumenn að þeir aki ekki undir neinum kringumstæðum eftir að hafa neytt áfengis.

Tengill á skýrslu

Ólafsfjarðarv. Freyjulundur

Umferð
Nr. máls: 2018-108U018
17.01.2020

Ökuhæfi og veikindi

Veikindi og lyfjanotkun vegna þeirra geta haft neikvæð áhrif á hæfni einstaklinga til að stjórna ökutæki örugglega. Sum lyfseðilsskyld lyf hafa slævandi áhrif sem gerir það varasamt að stjórna ökutæki eða vinna störf sem þarfnast fullrar einbeitingar. Mikilvægt er að læknar upplýsi sjúklinga sína um áhrif slævandi og róandi lyfja á viðbragðsflýti og einbeitingu. Jafnframt er mikilvægt að einstaklingar hafi sjálfir í huga þessar aukaverkanir lyfja og fylgi leiðbeiningum lækna og fylgiseðla af nákvæmni.

Í III. viðauka reglugerðar um ökuskírteini nr. 830/2011 eru gerðar strangari heilbrigðiskröfur til m.a. ökumanna sem aka vöru- og hópbifreiðum. Rannsóknarnefnd samgönguslysa bendir á að mikilvægt er að ökumenn, sérstaklega þeir sem aka bifreiðum sem krefjast aukinna ökuréttinda, hætti akstri ef þeir eiga við veikindi að stríða sem skerða ökuhæfni eða nota lyf sem skerða ökuhæfni.

Ólafsfjarðarv. Freyjulundur (1)

Umferð
Nr. máls: 2018-108U018
17.01.2020

Notkun öryggisbelta

Ökumaðurinn sem lést var ekki spenntur í öryggisbelti og kastaðist fram á stýrið í slysinu. Nefndin telur mögulegt að ökumaðurinn hefði lifað slysið af hefði hann verið spenntur í öryggisbeltið. Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur mikilvægt að brýna fyrir ökumönnum og farþegum að nota ávallt öryggisbelti, hvort sem verið er að fara styttri eða lengri vegalengdir. Vanhöld á notkun öryggisbelta eru ein helsta orsök banaslysa í umferðinni.