Leita að skýrslu
Nýlegar slysa- og atvikaskýrslur:
Álftanesvegur austan Bessastaða
Slysið varð á Álftanesvegi skammt austan við afleggjara að Bessastöðum.
Skýrsla 16.12.2006Vesturlandsvegur við Þingvallaafleggjarann
Mazda fólksbifreið var ekið norður Vesturlandsveg síðdegis á sunnudegi. Slysið átti sér stað rétt norðan Þingvallaafleggjarans. Ökumaður fólksbifreiðarinnar ók yfir á rangann vegarhelming framan á Lexus jeppling sem kom úr gagnstæðri átt. Rétt áður en bílarnir skullu saman af miklu afli reyndi ökumaður jepplingsins að sveigja til hægri. Lenti fólksbifreiðin á vinstra framhorni hans. Snérist bifreiðin hálfan hring og staðnæmdist á miðjum veginum. Lexus jepplingurinn endaði um 16 metrum utan akbrautar, sjá mynd hér að neðan. Ekki sáust ummerki um hemlun á vettvangi.
Skýrsla 10.12.2006Stykkishólmsvegur
Ökumaður fólksbifreiðar ók að næturlagi áleiðis til Stykkishólms. Akstursaðstæður voru ekki góðar, ísing var á veginum og myrkur. Rétt um það leyti þegar hann ók framhjá afleggjaranum að flugvellinum missti hann stjórn á bifreiðinni í aflíðandi vinstri beygju. Rann bifreiðin yfir á rangan vegarhelming og þaðan útaf veginum með hægri hliðina á ljósastaur. Valt bifreiðin við það á hliðina og endaði á hjólunum um 10 metra frá ljósastaurnum, sjá afstöðumynd hér að neðan.
Skýrsla 08.12.2006Suðurlandsvegur við Sandskeið
Ökumaður VW-bifreiðar ók Suðurlandsveg áleiðis til Reykjavíkur í björtu veðri eftir hádegi á laugardegi. Bleyta var á veginum og umferð mikil. Í bifreiðinni voru tveir ungir karlmenn. Hafði glannalegt aksturslag ökumanns bifreiðarinnar vakið athygli vegfarenda. Á sama tíma var bifreið af gerðinni Toyota Corolla ekið áleiðis austur sama veg. Rétt fyrir slysið ók VW-bifreiðin á eftir vörubifreið. Vegna bleytu á vegi myndaðist austur af vatni fyrir aftan vörubifreiðina. Skyndilega fór VW-bifreiðin yfir á rangan vegarhelming og í veg fyrir Toyota-bifreiðina. Ekki sáust ummerki á vettvangi af hemlaförum en báðir ökumennirnir reyndu að afstýra árekstrinum með því að sveigja til suðurs. Var vinstra framhorn VW- bifreiðarinnar komið út af veginum þegar ökutækin rákust saman. Áreksturinn var mjög harður.
Skýrsla 02.12.2006Reykjanesbraut í Molduhrauni
Umferðarslysið varð á Reykjanesbraut við Molduhraun. Ölvaður ökumaður ók fólksbifreið á miklum hraða, frá Hafnarfirði austur Reykjanesbraut. Vegna vegavinnu við tvöföldun Reykjanesbrautar voru akreinarnar tvær í austurátt þrengdar í eina og umferð veitt yfir á vesturakreinina (ekið til Hafnarfjarðar). Lögregla hafði ítrekað gert athugasemdir við varúðarmerkingar vegna framkvæmdanna. Götulýsing var ekki virk við upphaf þrengingarinnar.
Skýrsla 11.11.2006Vopnafjörður við Laxdalstún
Slysið varð innanbæjar á Vopnafirði við svonefnt Laxdalstún. Samkvæmt framburði vitnis ók ökumaður á miklum hraða eftir Kolbeinsgötu og beygði niður til vinstri í átt að Sundabúð/elliheimili. Ökumaður missti stjórn á bifreiðinni í beygjunni, ók yfir á öfugan vegarhelming, utan í kantstein en þar á eftir um malbikað bílastæði við hlið bílageymslu. Ökumaður ók fram af bílastæðinu og hafnaði bifreiðin í sjónum.
Skýrsla 26.10.2006Köldukvíslarvegur
Ökumaður fór frá Hálendismiðstöðinni í Hrauneyjum áleiðis að ánni Köldukvísl, að talið er um miðja nótt. Malarvegur liggur frá þjóðvegi 26 að Köldukvísl og varð slysið 500 metra frá þjóðveginum eins og sýnt er á
mynd úr kortagrunni. Þar sem slysið varð liggur vegurinn í aflíðandi brekku, yfir vegræsi en þar tekur við beygja til vinstri. Ökumaður ók útaf veginum og valt bifreiðin ofan í vegræsið. Af ummerkjum að dæma hefur bifreiðin ekki oltið strax.
Kjósarskarðsvegur við Þórufoss
Ökumaður jeppabifreiðar ók austur Kjósarskarðsveg. Skammt frá Þórufossi virðist hann hafa misst stjórn á bifreiðinni eftir að vindhviða skall á henni og lyfti upp að aftan. Lenti framhjól bílsins í þrígang í lausamöl vegaxla. Bifreiðin snérist á veginum, hafnaði útaf vinstra megin og valt. Ökumaður bifreiðarinnar notaði ekki bílbelti og kastaðist því út um framgluggann og lenti undir henni. Hann fórst á slysavettvangi. Farþegi í framsæti slasaðist lítillega, hann notaði bílbelti.
Skýrsla 16.10.2006Miklabraut
Karlmaður og kona gengu austur Miklubraut að nóttu til milli Kringlumýrarbrautar og Háaleitisbrautar. Voru þau á gangi hægra megin stofnbrautarinnar, ýmist á akbrautinni eða uppi á grasinu. Rétt vestan við gatnamót Miklubrautar og Háaleitisbrautar ók Kia fólksbifreið á konuna á akbrautinni. Við áreksturinn kastaðist konan upp í loftið og hafnaði á grasinu 12 metrum austan við árekstarstaðinn. Dánarorsök konunnar var höfuðáverkar.
Skýrsla 01.10.2006